Víðsýnt er af Nesinu og töfrum líkast þegar kvöldsólin baðar hafflötinn. Fáir staðir eru eins stjörnubjartir og Snoppa, þar sem vegurinn að Gróttu endar, og er sá staður vinsæll áfangastaður fyrir bæði norðurljósa- og stjörnuskoðun.
Grótta, sem hið nýja hverfi dregur nafn sitt af, er eitt helsta kennileiti Seltjarnarness. Hún er fyrst nefnd í fógetareikningum um 1550. Upphaflega var hún breiður vestasti hluti nessins en landsig og landbrot hafa valdið því að hún varð eyja, landtengd með granda sem stendur upp úr í fjöru. Árið 1897 var reistur þar fyrsti vitinn, en núverandi viti leysti hann af hólmi árið 1947. Fræðasetur er nú rekið í byggingunum í Gróttu.
